Reglulega má sjá fréttir í fjölmiðlum af málaferlum eða deilum vegna stórra trjáa á lóðarmörkum. Deilur af þessu tagi snúast jafnan um skuggavarp trjánna, að rætur valdi skemmdum, að greinar vaxi yfir á lóð nágranna eða að önnur sambærileg óþægindi hljótist af trjágróðrinum.

Þegar svona mál koma upp spyr fólk sig oft hvaða rétt garðeigandi hefur varðandi útplöntun og aðrar framkvæmdir á sinni lóð. Einnig hvaða rétt garðeigendur hafa varðandi gróður í nærliggjandi görðum sem skyggja á eða hindra útsýni. Það getur verið erfitt að dæma um það í dag hvar rétturinn liggur þegar um er að ræða gömul tré og enda þessháttar mál oft fyrir dómstólum.

Það vita eflaust ekki allir að byggingareglugerð inniheldur reglur um margt er varðar framkvæmdir á lóð og skipulag þeirra. Ný byggingareglugerð kom út 2012 og í henni má nálgast ýmsar upplýsingar um hvað má og hvað ekki þegar kemur að lóðarframkvæmdum. Byggingareglugerð þróast og tekur breytingum með árunum en það er ekki verra að hafa nokkrar helstu reglurnar við höndina þegar ráðist er í lóðaframkvæmdir svo allt sé á hreinu.

Hér eru nokkrir punktar úr nýjustu byggingareglugerðinni.

Pallur úr brennanlegu efni má ekki vera nær lóðamörkum en 1,0 m án þess að sækja um leyfi.
Ekki má breyta hæð lóðar á þann veg að það valdi skemmdum á lóðum nágranna eða skerði útsýni.

Skjólveggir og girðingar mega ekki vera nær lóðamörkum en sem nemur hæð þeirra. Dæmi: 1,8 m hár veggur skal vera 1,8 m frá lóðarmörkum.

Nágrannar mega sammælast um girðingu á lóðarmörkum en skila þarf inn undirrituðu samkomulagi til leyfisveitanda.

Ekki má planta hávöxnum trjátegundum nær lóðarmörkum er 4,0 m.
Við gróðursetningu á frjálsvöxnum gróðri skal taka tillit til skuggavarps á viðkomandi lóð og nágrannalóðir.

Sé trjám og runnum plantað við lóðamörk mega þau ekki verða hærri en 1,80 m nema lóðahafar beggja lóða séu sammála um annað.

Við lóðamörk að gangstíg, götu eða opnu svæði má trjágróður ná meiri hæð með samþykki veghaldara eða umráðaaðila viðkomandi svæðis.

Lóðarhafa er skylt að halda vexti trjáa og runna á lóðinni innan lóðamarka. Sinni hann því ekki og þar sem hann vex út fyrir lóðamörk við götur, gangstíga og opin svæði er veghaldara eða umráðamanni þess svæðis heimilt að fjarlægja þann hluta er truflun eða óprýði veldur á kostnað lóðarhafa að undangenginni aðvörun.

Lóðarhafa er skylt að ganga snyrtilega frá lóð sinni með gróðri eða á annan hátt í samræmi við samþykkta uppdrætti.

Sveitafélög setja reglur varðandi þann tíma sem lóðarhafi fær til að ganga frá lóðinni.
Lóðarhafa er skylt að ganga frá lóð byggingar í u.þ.b. rétta hæð og fjarlægja þann uppgröft sem ekki nýtist á lóðinni áður en byggingin er fokheld.

Lýsing á lóð má ekki valda óþarfa ljósmengun, vera nágrönnum til óþæginda eða trufla umferð utan lóðar.

Í þéttbýli ber lóðarhafa að haga skipulagi og frágangi lóðar þannig að yfirborðsvatn af lóð hans valdi ekki skaða eða óþægindum á götu, gangstétt eða nágrannalóð.

Tjarnir á lóð, gosbrunnar, heitir pottar, brunnar o.þ.h. skulu búnir öryggisbúnaði sem tryggir að börn og fullorðnir geti ekki fallið í þá.

Afrennsli sundlauga, heitra potta o.s.fr.v skal verja svo ekki sé hætta á slysum.
Sundlaugar eða sá hluti lóðar í heild skal girða af með a.m.k. 0.90 m hárri girðingu sem smábörn komast ekki í gegnum og með hliði sem þau geta ekki opnað.

Setlaugar (heitir pottar) skulu búnar læsanlegu loki til að hylja þær þegar þær eru ekki í notkun.
Barmur setlauga (heitra potta) skal vera a.m.k. 0.40 m yfir göngusvæði umhverfis laugina.

Byggingareglugerðina í heild má finna á vef Mannvirkjastofnunar

Samantekt Ágústa Erlingsdóttir

Námsbrautarstjóri skrúðgarðyrkjubrautar við LbhÍ