Opið bréf til Viðskiptaráðs

Í nýútgefinni skýrslu Viðskiptaráðs sem ber titilinn Hið opinbera, meira fyrir minna, er því slett fram að óþarflega margar iðngreinar séu lögverndaðar. Þar er kastljósinu sérstaklega varpað á skrúðgarðyrkju með eftirfarandi orðum:

„…er vandséð hvernig verulegt tjón geti skapast af slæmri þjónustu þegar kemur að hattasaumi eða skrúðgarðyrkju. Ekki verður því séð hvernig almannahagsmunir séu að baki leyfisskyldu í þessum greinum.“

Köfum nú aðeins ofan í það hvað skrúðgarðyrkjumeistarar gera og hvernig það tengist almannahagsmunum.

Á fagsviði skrúðgarðyrkju eru allar nýframkvæmdir á lóðum hvort sem er í einkaeigu, hjá fyrirtækjum, opnum svæðum sveitafélaga eða hjá hinu opinbera. Til nýframkvæmda teljast ýmisir verkþættir s.s. hellulagnir, hleðslur, þökulagnir, útplantanir á gróðri, uppsetning leiktækja, frágangur og uppsetning á blágrænum lausnum og margt fleira. Að auki sjá skrúðgarðyrkjumeistarar um alla umhirðu á fyrrnefndum svæðum s.s. trjá og runnaklippingar, slátt, hreinsun, snjómokstur, illgresiseyðingu og trjáfellingar.

Það sem fáir átta sig á er að til skrúðgarðyrkju tilheyrir uppsetning á leiktækjum og leiksvæðum auk viðhaldsverka tengdum þeim. Þar eru almannahagsmunir heldur betur ríkir þar sem líf og velferð barnanna okkar er í húfi ef ekki er farið eftir öryggisstöðlum og reglum er þetta varðar. Slysahætta sem hlýst af leiktækjum sem ekki eru rétt uppsett eða uppfylla ekki staðla er háalvarlegt mál sem ekki má líta framhjá. Skrúðgarðyrkjumeistarar er eina iðngreinin á Íslandi sem lærir að framkvæma á leiksvæðum og sinna úttektum á þeim. Í úttektarstörfum er skoðað sérstaklega hvort hætta er á alvarlegum slysum s.s. hengingu, beinbrotum og höfuðáverkum hjá börnum sem nota þessi tæki. Er það ekki verk sem við sem þjóð viljum að séu faglega unnin?

Það getur verið gríðarlega kostnaðarsamt fyrir stóra verkkaupa eins og sveitafélögin og hið opinbera þegar ófaglærðir fá útboðsverk og skila af sér vinnu sem er ófagleg og endingarlítil eða jafnvel ónothæf frá fyrsta degi. Verk sem eru jafnvel boðin út fyrir tugi og jafnvel hundruði milljóna og þarf svo að fá nýjan faglærðan verktaka í og endurvinna. Kostnaður við svona vinnubrögð kostar skattborgara þessa lands gríðarlegar fjárhæðir á ári hverju. Einnig má nefna að fjöldi einkaaðila lendir í að kaupa svona vinnu og þurfa að berjast í því að sækja rétt sinn með tilheyrandi kostaði. Þó upphæðirnar séu lægri hjá einkaaðilum þá er þetta peningur sem hinn almenni borgari dregur ekki endilega upp úr rassvasanum.

Þegar kemur að umhirðu gróðurs leynast einnig margar hættur sem tengjast öryggi borgaranna og hættu á eignatjóni. Skrúðgarðykjumeistarar eru sérmenntaðir í að sinna umhirðu trjágróðurs og meta ástand trjáa þegar þau eru orðin mjög há eða farin að eldast og skapa hættu. Tré á Íslandi eru að verða það há að hér er að verða til sér fag trjáklifrara sem sinnir umhirðu þeirra líkt og þekkist í flestum löndum heims. Stór tré geta valdið gríðarlegu tjóni ef þau falla og er þar um að ræða hættu á bæði eignatjóni og manntjóni, sem ekki verður metið til fjár.

Skrúðgarðyrjumeistarar sjá um framkvæmdir á svæðum í aðkomu bygginga sem inniheldur t.a.m. tröppur og skábrautir fyrir notendur hjólastóla. Algild hönnun í aðkomu bygginga fjallar um að aðgengi þurfi að vera gott og þar þarf að fylgja til hins ítrasta Byggingareglugerð og leiðbeiningum Húsnæðis og mannvirkjastofnunar við framkvæmdir.  Aðgengi þarf að henta öllum þjóðfélgashópum s.s. fötluðum, blindum, sjónskertum, hand og/eða fótskertum, lesblindum og þröskahömluðum. Það er því að ótrúlega mörgu að huga við að útbúa svæði sem uppfylla þessar reglur og gera þau notendavæn fyrir alla þessa hópa og sjá til þess að ekki skapist hætta af notkun þeirra.

Skrúðgarðyrkjumeistarar gera því ýmislegt fleira en að vahoppa um og pota niður sumarblómum sem virðist vera það sem margir halda að sé þeirra helstu verk.

Félag skrúðgarðyrkjumeistara beinir því hér með til Viðskiptaráðs að þau geri okkur og borgurum þessa lands þann greiða að vinna lágmarks undirbúningsvinnu áður en svona illa ígrunduðum hugmyndum er fleygt fram og biðjist afsökunar á þessum skrifum.

Ágústa Erlingsdóttir

Stjórnarmaður í Félags skrúgarðyrkjumeistara